Guðrún Dís
Manage episode 327306247 series 2922762
Patreon hlekkur: https://www.patreon.com/eiginkonur
Guðrún Dís sem er nítján ára segir í þættinum frá sinni upplifun af því að alast upp hjá móður sem á við áfengisvandamál að stríða. Hún segist hafa ákveðið að segja frá sinni hlið mála eftir að mamma hennar opinberaði sögu sína á Youtube. Guðrún hefur nú lokað á öll samskipti við mömmu sína. ,,Ég átti góða æsku og mamma mín var æðisleg. Það var alltaf nýbakað brauð þegar ég kom heim og mamma hugsaði mjög vel um mig," segir Guðrún Dís í þættinum. Hún segir að líf sitt hafi breyst mjög til hins verra þegar hún var 12 ára því þá hafi mamma hennar byrjað að drekka. Í kjölfarið hafi fjölskyldan misst heimilið og að hún og systkini hennar hafi flakkað milli hjólhýsa og hótela. ,,Ég byrjaði alla morgna á að spyrja hvert ég ætti að koma eftir skóla, því maður vissi aldrei hvar maður myndi vera næstu nótt,” segir Guðrún Dís. Hún talar einnig um að hafa upplifað mikla skömm yfir því að hafa hvergi átt heima og það hafi verið erfitt að útskýra fyrir kennurum og öðrum hvers vegna hún kom oft of seint í skólann en Guðrún segist hafa þurft að sjá um litla bróður sinn líka, þar á meðal undirbúa hann fyrir leikskólann og fylgja honum þangað. Guðrún segist ekki hafa orðið reið fyrr en hún lokaði á mömmu sína. Hún segir samskipti þeirra mæðgna lengi hafa verið mjög óheilbrigð og að hún hafi upplifað sig sem meiri vinkonu en dóttur mömmu sinnar. Guðrún reykti gras í fyrsta sinn með mömmu sinni. Það var á aðfangadag. Hún segir að sér hafi fundist það ,,nett” á þeim tíma en um leið hafi hún glímt við mikla vanlíðan. Guðrún segir mömmu sína glíma við mikil veikindi en hún eigi ekki og geti ekki borið ábyrgð á foreldrum sínum. Í dag segist hún glíma við mikla áfallastreituröskun og lýsir yfir miklum vonbrigðum með að starfsfólk barnaverndar skyldi ekki hafa gripið inn í miklu fyrr en það gerði.
Þátturinn er í boði:
The Body Shop - https://www.thebodyshop.is/is
Macland - https://macland.is/
114 επεισόδια